Share on facebook
Einstakar olíur
Síðasta ár er búið að vera stórfenglegt og stórfurðulegt á allan hátt, sem því miður hefur bitnað á bloggaranum.  Ég hef nefnilega séð að þetta blogg gefur mér heilmikið, mér þykir gaman að skrifa og koma frá mér texta og svo er oft þrælgott að vísa í bloggið þegar fólk sýnir olíunum áhuga.
uploads - BusyWoman.jpeg

En hvað gerðist eiginlega ???

Þetta byrjaði allt með því að maðurinn minn sá auglýsta nýbyggingu i Urriðaholtinu í september í fyrra.  Hann mátti það svosem alveg og ég sagði honum endilega að fara og skoða.  Þetta var ómögulegt hús í alla staði, annað barnaherbergið 15 fm á meðan hitt var rúmir 7, baðherbergi á  miðju stofugólfinu og eitt og annað sem frúin gat sett fyrir sig – en að sjálfsögðu leyfði ég honum að fara á opið hús 😊

 

En í framhaldinu gerðist nákvæmlega það sama og þegar stelpurnar fóru að senda mér myndir af hundum hér um árið og ég var allt í einu komin á kaf í að velja hund !  Ég fór að skoða teikningar af húsum í Urriðaholtinu uppá kraft og fann eitt sem okkur leist báðum vel á.  Barnaherbergin bæði rúmgóð, reyndar þrjú mini baðherbergi með þremur sturtum og anddyrið meira sýnishorn en alvöru innkoma í húsið.  

Kostirnir voru engu að síður mun fleiri en ókostirnir, við sáum að það yrði opið hús fljótlega og tókum tímann frá.

 

5. október 2019 er mjög minnisstæður

Við komum úr afmælisveislu og ákváðum að renna framhjá Hellagötunni og kíkja á húsið sjálft.  Þar sem við röltum um gangstéttina kemur konan í húsinu við hliðina út og það endar þannig að hún hringir í manninn sinn og fékk hann til að koma með lykla og sýna okkur húsið.  Það var ekkert með það að elsku prinsinn okkar kolféll fyrir þessu skemmtilega húsi, sem n.b. var ekkert nema steinninn.

Svo skyndilega var ég komin á fullt í húsabrask í öllum frítíma og nánast vinnutíma líka. 

Það að minnka við sig um rúma 100 fm er ansi gott átak auk þess sem gamla húsið var orðið yfirfullt af óþarfa dóti.  Nú var minimalistinn dreginn fram og dubbaður hressilega upp.  Ekkert skyldi flutt á milli nema það sem við raunverulega notum.

Samhliða þessu þurfti svo að hanna og ákveða allt í nýja húsið, skipuleggja iðnaðarmenn og kljást við mjög svo óskipulagða seljendur sem sífellt ætluðu ýmist að afhenda húsið á morgun eða eftir helgina.

Jólin fóru fyrir ofan garð og neðan.  Þau voru undirbúin og haldin. 
Allar gjafir sem hægt var að leysa með olíugjöfum, peningum eða gjafabréfum voru tæklaðar á netinu.
Milli jóla og nýárs var allt gert klárt fyrir iðnaðarmenn að byrja að vinna 2. janúar

Það stóðst þó allt, við fluttum húsgögnin 6. mars, fórum á afmælistónleika Gunnars Þórðarsonar 7. mars, sóttum dót í Reyrengið 8. mars og Tryggvi byrjaði í skólanum 9. mars.  

Þá var Covid komið á kreik og viku síðar voru allir skólar settir í skert prógram.  Við vorum svo ótrúlega heppin að vera flutt í þennan fámenna skóla í risastóru húsnæði, þannig að okkar maður fékk nánast fulla kennslu og fékk að halda áfram að kynnast nýju bekkjarfélögunum.

Ójú, það voru sko olíur

Þið getið sko rétt ímyndað ykkur hvað það fóru mörg olíuglös og mismunandi á þessum tíma : Copaiba, PanAway, Wintergreen, Cool Azul og Peppermint á þreytta vöðva og auman skrokk.  Cool Azul gelið er einnig ómissandi í brölti sem þessu.  Mjömin mín var extra slæm á þessum tíma og glösin nýtt á hverri nóttu til að ná svefni

Believe er alltaf til staðar, svona til að halda andlegu heilsunni á sínum stað.  Believe er nú bara þessi sem fylgir mér alltaf, nánast í hvaða aðstæðum sem er.  

Ég er líka orðin mikill unnandi þess að drekka olíur í vatnið mitt og á þessum tíma hætti ég alveg að drekka PepsiMax.  Þá eru Lime, Grapefruit og aðrar sítrusolíur ferlega góð viðbót við sódastream-ið.  

Málið var nefnilega að mitt í öllu ruglinu skelltum við hjónin okkur á Ketó.  Eftir á að hyggja var það ótrúlega sniðugt því í svona framkvæmdum verður aðal fæðan oftar en ekki pizzur, kleinur og sælgæti.   Við hefðum endað verulega hnöttótt en í stað þess missti Eyvindur 11 kíló og ég 1,1  !  ég held einhvern vegin að hormónakerfið mitt og allt þetta stress hafi ekki alveg verið með á nótunum.

Þannig að eftir flutninga hafa hormónastyrkjandi olíur og Multigreens bætiefni verið notuð daglega.  Það er annars svo merkilegt með þessar hormónaolíur að stundum er eins og líkaminn sogist í þær og kalli á þær oft á dag en svo virðist ástandið komast í jafnvægi og þörfin dvínar.   Þá reynir á að hafa þær á réttum stað við rétt tilefni svo ég fatti frekar að grípa í þær.

Niðurstaðan er sú að hér eru olíur í hverju horni, á hillum, borðum, í skápum, skúffum og náttborðum.  Fljótlega verður farið í það verkefni að kaupa fallegar olíuhillur 😊

Listin að selja hús

Við fluttum í raun öfuga leið.  Fyrst tókum við húsgögn og allt það nauðsynlegasta, svo fórum við og sóttum það sem okkur vantaði.  Restin varð eftir í Reyrenginu til yfirferðar.  Markmiðið var að taka ekkert með okkur nema það sem okkur langaði virkilega að eiga eða væri nauðsynlegt. 

Þetta átti nú ekki að vera flókið .. en þegar á reyndi tók það marga mánuði að tæma kofann!  

Stórmerkin gerðust og í kringum páska fengum við kauptilboð í R29.   Flott tilboð, sem okkur leist vel á og samþykktum.  EN … þessu boði var aldrei ætlað að standa og tilvonandi kaupandi var staðráðinn í að finna eitthvað að sem hann gæti nýtt til að fella húsið í verði.  Meira að segja var sett út á lausan hurðarhún og hann notaður sem rök fyrir lækkun kaupverðs. 

Það endaði þó svo að áður en honum tókst ætlunarverkið kom annað tilboð í húsið !   Mun betra tilboð, reyndar með uppítöku á öðru húsi en vel ásættanlegt og við vorum  alsæl með að ná að loka þessum enda.

Allt kapp var því sett í að klára tiltekt í R29 og ýmsir sem nutu góðs af hlutum sem vantaði nýtt líf.  Verst þótti mér að vegna Covid voru allir nytjamarkaðir lokaðir en ég hafði allar klær úti með að koma hlutunum á rétta staðinn engu að síður.  Gömlu Fisher Price húsin mín munu t.d. verða til sýnis á leikfangasafni sem opnar á Selfossi innan tíðar og ungum frænkum, frændum og vinum áskotnuðust ýmsir dýrgripir. 

!!! 50

5.júní 2020 rann upp og frúin var orðin fullra fimmtíu ára !   

Eitthvað var í mér að vilja bara eiga þennan dag og þessa helgi fyrir mig og okkur hjónin en alls ekki fara út í að halda veislu á þessum tímapunkti.  

Systkini mín og foreldrar voru svo frábær að gefa mér hótelgistingu og tónleika í afmælisgjöf og eftir dekur í boði bóndans héldum við á Hótel Grímsborgir þar sem við áttum dásemdar helgi.  

Eyvindur var m.a. búinn að panta fyrir mig nudd og ég tók með mér Release olíuna og bað nuddarann að lauma henni með.  Nuddarinn sagðist aldrei hafa upplifað aðra eins gersemi og fullyrti að hún hefði fengið meðferð ekkert síður en ég 😉

Helgin varð ógleymanleg, við komum heim til að hjálpa dóttur minni og kærasta að flytja í sína nýju íbúð og svo gerðum við ráð fyrir að afhenda R29 nokkrum dögum seinna.

Áfall !

Þá kom áfallið.  Við fengum símtal þar sem okkur var tjáð að konan sem keypti húsið hefði greinst með krabbamein og þau vildu fá að bakka út úr kaupunum. 

Að sjálfsögðu er ekkert annað hægt að gera en samþykkja svona bón þó öll samningamál væru okkar megin.  Margir sem við sögðum tíðindin vorkenndu þessarri ókunnu konu með krabbameinið alveg ógurlega, sem ég viðurkenni að særði mig svolítið.  Fólk er sífellt póstandi því að það þurfi að huga að andlegri heilsu, en þegar á reynir þá á hún ekki mikið upp á pallborðið

Þannig að á bakvið tjöldin var það hún jákvæða ég sem fékk áfall í kyrrþey. 

Eftir marga mánuði af stanslausri vinnu við að einfalda lífið þá þoldi ég ekki þessi tíðindi og brotnaði alveg.  Við gerðum það auðvitað bæði og sumarið varð gífurlega erfitt.  Viðnámið mitt er mun verra eftir að hafa klesst á vegginn hér um árið og þarna upplifði ég það aftur.  Örmögnun, ofurþreytu og gífurlegan leiða.  Dagarnir á eftir voru ömurlegir og við vorum ekki að trúa að þetta væri að gerast aftur.

En eitt var breytt frá því síðast :  núna átti ég olíur.   Sömu frábæru olíurnar og ég hnaut um haustið 2016 þegar ég rambaði inn í örmögnun og hafa gert alveg gífurlega mikið fyrir bæði orku og anda.  Sömu olíurnar og svo ótal margir hafa gert grín að mér fyrir, fussað yfir, fordæmt og kallað bull.

Ég sendi neyðarákall inn í olíuvinahópinn og bað um ráð og hvaða olíur ég ætti að nota.   Það var fyrsta leiðin sem kom í hugann – að verða að fá réttu olíurnar.  Ég fékk ótal góð ráð, safnaði saman þeim tilfinnangaolíum sem ég átti og lagðist í glösin.  Baðaði mig í þeim, bar á, andaði inn og grét yfir þessum fáránlegu örlögum.

Það er svo ótrúlegt að finna áhrifin sem þessir dropar hafa á sálina.  Valor II komst í sérstakt uppáhald hjá mér og ég notaði hana mikið.  Þótti mjög gott að setja olíuna í lófana, krossleggja handleggi og halda lófum á öxlunum þéttingsfast, eins og til að faðma mig og vernda. 

Olíubuddan

Hjálpararnir

Sacret Mountain er ótrúlega jarðtengjandi og róandi og hún fékk fastan sess á náttborðinu. White Angelica sömuleiðis – olían sem verndar fyrir vondri utanaðkomandi orku.

Tilfinningaolíurnar sem ég hafði safnað saman í tösku voru notaðar í dágóðu magni og þær virkilega hjálpuðu.  Eins og mér er lagið, þá synti ég áfram, vann og hugaði að öllu – nema helst sjálfri mér.  En ég notaði olíurnar markvisst til að halda mér gangandi án þess að bugast alveg.

Á einhverjum tíma horfði ég á vídeó með henni Artemis frá Ástralínu þar sem hún talaði um Purification olíuna fyrir tilfinningar.  Til þess að hreinsa út bæði úr sjálfri sér og umhverfinu og meðal annars til að hreinsa út slæman anda í húsum.  Eftir það fór ég reglulega í Reyrengið og setti Purification í lampann – ætli það hafi ekki þurft að hreinsa eitthvert rugl í burtu.  Í það minnsta gerðist það að tilfinningarnar mínar gagnvart R29 breyttust úr pirringi og reiði í væntumþykju yfir gömlum og góðum stundum.

Silver

Dag einn seinnipart júlí vaknaði ég upp við þá staðreynd að langþráð markmið gæti orðið að veruleika.  Markmið sem ég hef haft, en sífellt sett á hilluna fyrir annað, en það var að ná Silver stöðu hjá Young Living.  Ég opnaði hugmyndina út í cosmosið og inn stukku nokkrar dásamlegar dísir sem tóku þátt í ævintýrinu með mér, enda er það alls ekki eins manns verk að verða Silver heldur verkefni hóps.

Síðustu dagarnir í júlí voru dásamlega skemmtilegir og ég hreinlega lifnaði aftur við.  Spjall fram á nætur við olíuvinkonurnar mínar, ýmis plott og spurningar – allt til þess að rétt um 11 leytið föstudaginn 31. Júlí horfði ég loksins á SILVER á Young Living yfirlitinu mínu.

Tryggvi er enn að vísa í gleðiöskrið sem heyrði af efri hæðinni og á þessu tímabili fór loksins doðinn sem hafði legið yfir og ég upplifði ótrúlega gleði og tilgang.

Ágúst varð svo mjög skemmtilegur, Jónsi bróðir kom heim frá Danmörku og við brölluðum heilmargt með honum.  Ég heimsótti Vestfirði í fyrsta sinn og þó að vissulega hefði veðrið mátt taka betur á móti okkur þá var magnað að fara út á Látrabjarg í hífandi roki og upplifa máttinn þar.

Ferðin að Dynjanda var samt ótrúlega falleg 

 

Einnig fórum við í góða heimsókn og útilegu til elsku vinkvenna minna í Skagafirðinum þar sem við stelpurnar lékum okkur með olíur á meðan þeir feðgar könnuðu staðhætti.  Frábært að geta sameinað olíurnar og ferðalög á þennan hátt.

Ég er ótrúleg þakklát þessum stelpum fyrir að hafa verið til staðar þegar ég þurfti á þeim að halda ♥

Það hafðist að lokum

Það komst líka hreyfing á málin í Reyrenginu og loksins kom fólkið sem ég hugsaði :  þau eru fullkomin í R29.  Það má aldrei gleyma því að gömlu, góðu nágrannarnir okkar voru búin að biðja okkur um að velja nú vel í húsið og við vildum ógjarnan bregðast því. 

Og núna small allt saman og Reyrengi fékk nýja eigendur.  Dagurinn sem við skrifuðum undir kaupsamning og afhentum húsið var alveg magnaður.  Ég hefði ekki trúað tilfinningarússíbananum sem fylgdi í formi gleði, feginleika, léttis og hamingju yfir að þessum kafla skyldi lokið. 

Núna horfum við á lokaskref í vegferð sem hófst síðasta haust og hafði það að markmiði að einfalda líf okkar og hreinsa út óþarfa óreiðu.  Vissulega slæddist ýmislegt með okkur hingað yfir sem þarfnast frekari tiltektar og losunar, en núna erum við þó í sama húsi og ruslið og getum kíkt í einn og einn kassa.  Á vissan hátt var frábært að flytja á þennan hátt en óneitanlega flókið og tók mikla orku.

Núna er bloggarinn vaknaður aftur og hefur kynnst lífinu mun betur síðustu mánuði.  Hann veit fyrir víst að olíurnar sem bönkuðu á dyrnar fyrir fjórum árum eru komnar til að vera og þörfin til að deila með öðrum er sterkari en nokkru sinni.  Hann veit að næsta markmið er sett á GOLD.  Þeim áfanga verður aldrei náð með því að vera einn, heldur þarf lið.  Lið sem vinnur saman af ástríðu fyrir frábærri gjöf jarðar og gleðinni af því að eiga þetta sameiginlega og magnaða áhugamál.

Þar sem ég sit hér böðuð Abundance, Believe, Surrender, Release og drekk Lime í vatnið mitt er ég uppfull af tilhlökkun fyrir komandi tíma og uppfull af þakklæti fyrir svo ótal margt gott sem gerðist þessa þó erfiðu síðustu mánuði.

Skildu eftir skilaboð

Um mig

Eru ilmkjarnaolíur eitthvað fyrir þig ?
Markmið mitt hjá Einstökum Olíum er að sem flestir prófi Young Living olíurnar og finni hvað þær gera. 
Einnig lofa ég góðum stuðningi til þeirra sem gerast viðskiptavinir og vilja fá upplýsingar og aðstoð.

Eldri blog

Scroll to Top